Samfélag fyrir alla.

Á laugardaginn göngum við til kosninga enn á ný, á laugardaginn ræðst það hverjir muni gegna störfum í umboði fólksins í bæjar og sveitarstjórnum landsins. Það er ekki lítið eða léttvægt að vera falið það hlutverk að sitja í bæjarstjórn, að ráðstafa fjármunum skattborgaranna í þau margvíslegu verkefni sem eru í stóru sveitarfélagi, sum útgjöld eru vissulega fyrirfram ákveðin og bundin í lögum eða samningum, en annað fer eftir forgangsröðun þeirra sem sitja við stjórnvölinn.

Hjá okkur vinstri grænum eru mál á stefnuskránni sem ekki er að finna í stefnuskrá annarra flokka, nefnilega gjaldfrjáls leikskóli. Í orði er talað um að leikskólinn sé fyrsta skólastigið en á borði er það ekki svo meðan foreldrar leikskólabarna þurfa að borga leikskólagjöld, við viljum ganga alla leið og lækka leikskólagjöld um 25% á ári út kjörtímabilið uns takmarkinu er náð í lok kjörtímabilsins og gjaldfrjáls leikskóli verður að veruleika.

Við viljum einnig að skólamáltíðir verði nemendum að kostnaðarlausu allir nemendur grunnskólans ættu að eiga rétt á fríum skólamat, ekkert barn ætti að þurfa að gjalda fyrir efnahag foreldra sinna innan veggja grunnskólans. Sömuleiðis ættu öll kennslugögn að vera lögð til, blýantar og strokleður þar meðtalið, semsagt allt.

Börnin eru okkar dýrmætasti mannauður, þeirra er framtíðin, það skiptir máli hvernig framtíð við búum börnunum okkar, hvort við jöfnum aðstöðu þeirra til að vaxa og dafna í samfélagi sem hefur það að leiðarljósi að virkja hæfileika hvers og eins og mæta fólki á jafnréttisgrundvelli, eða hvort þeir sem ekki hafa fjárráðin sitji eftir með ónýtta hæfileika sem enginn tók eftir af því þeir fengu ekki tækifæri á að blómstra og njóta sín í samfélagi þar allt kostar.

Það getur hver barnafjölskylda séð hversu mikil kjarabót það yrði ef ekki þyrfti að borga leikskólagjöld.

Þó að við setjum þessi mál á oddinn nú, er fjarri því að við höfum gleymt öllu hinu.

Nú sem aldrei fyrr á stefna okkar vinstri manna erindi við fólkið í samfélaginu, við þurfum að hafa talsmenn umhverfisins áfram við stjórnvölinn, við verðum að halda á lofti og starfa eftir gildum okkar vinstri grænna, jöfnuði, félagslegu réttlæti, og umhverfisvernd.

Eitt lítið mál fyrir okkur öll en stórt í víðara samhengi, er að stefna að platpokalausri Árborg, þar gætu fyrirtæki gengið á undan með góðu fordæmi og notað bréfpoka í stað plastpoka og við öll gætum notað taupoka, og jafnvel ætti sveitarfélagið að fara á undan með góðu fordæmi og senda margnota poka inn á heimilin í sveitarfélaginu. Við þurfum öll að leggjast á eitt við að snúa hinni gengdarlausu umbúðasóun við.

Ekki halda að við gleymum eldri borgurum Árborgar, í stefnuskrá okkar er komið inná allt það er varðar mannauð samfélagsins, við munum gera okkar besta í að mæta þörfum hvers og eins, sem að einhverjum ástæðum þarf liðsinnis við, sveitarfélagið hefur á að skipa gott sérhæft starfsfólk sem sinnir þarfagreiningu skjólstæðinga sinna og þar má aldrei skera niður, frekar bæta við starfsfólki heldur en hitt.

Ég hvet ykkur til að hugsa um það sem raunverulega skiptir máli í góðu samfélagi. Ég veit að flestum verður hugsað til fjölskyldunnar þegar raunveruleg verðmæti eru skoðuð, við hugsum til barnanna okkar sem eru svo dýrmæt, foreldranna sem leggja hart að sér til að ná endum saman, unglinganna sem standa frammi fyrir margskonar vali í lífinu, og eldra fólksins sem á fá að halda sinni reisn og taka ákvarðanir um hvort það vill búa á eigin heimili sem lengst og geti verið í sinni heimabyggð er ævikvöldið nálgast.

 

 


Blessaðar kosningarnar.

Eftir ríflega viku ganga landsmenn enn á ný til sveitastjórnakosninga. Nú keppast framboðin við að kynna stefnumál sín líkt og svo oft áður. Eru þetta ekki bara innantóm kosningaloforð spyr fólk mig en ég svara því auðvitað neitandi, að sjálfsögðu, en þannig er þetta líka, loforð okkar eru ekki og hafa aldrei verið orðin tóm, þau eru ekki ekki dregin fram í dagsljósið þegar kosningarnar nálsgst, þau eru öll með einum eða öðrum hætti skrifuð í stefnuskrá hreyfingarinnar, þau eru loforðin um virðingu fyrir náttúrunni og ekki síður okkar nánasta umhverfi, það eru loforð til fólksins að við munu gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um grunnþjónustuna frá vöggu til grafar, það eru loforðin um að ekkert barn skuli þurfa að líða fyrir efnhag foreldranna, loforðin um samfélag þar sem þú veist að ef veikindi steðja að, efnhagurinn rýrnar einhverra hluta vegna og ekki eru til peningar fyrir skólamat, strætó, frístundakorti, læknisþjónustu, akstri með fatlað barn, eða aldraðan einstakling þá muntu ekki þurfa að hafa áhyggjur af því.

Kannski er mesta kjarabótin fyrir fjölskyldur með börn á grunnskólaaldri, gjaldfrjáls leikskóli, leikskólinn er jú fyrsta skólastigið, ég býst við að foreldrar með börn á leikskólaaldri sjá hversu mikil kjarabót það yrði á mánuði ef ekki þyrfti að greiða leikskólagjöldin, setjist þau niður og reikni dæmið, ætli það mundi ekki toppa allar launahækkanir á vinnumarkaði fyrr og síðar, og það yrði ekki tekið um leið í hærra matarverði eða annarri hækkun eins og gerist svo sorglega oft þegar laun hækka eitthvað lítilræði á almennum vinnumarkaði. 

Stefnuskrá vinstri hreyfingarinnar má lesa Vg.is, og ég get lofað ykkur því að enginn úr okkar röðum mun gefa nokkurn afslátt nokkurntíma af sjálfsögðum mannréttindum, eins og þeim að fólk af erlendum uppruna finni fyrir virðingu og vinsemd í samfélaginu og upplifi sig sem hluta af okkar samfélagi, en ekki utangátta og sér á parti. 

Ég vona svo innilega að þið kjósið með jöfnuð og réttlátt samfélag að leiðarljósi í komandi  sveitarstjórnarkosningum.

 

 

 

 


Skin og skúrir.

Sveitungi minn sagði við mig eitt sinn er við sátum að spjalli, manstu hvað var oft rigning þegar við vorum krakkar? Ég hváði, rigning, var það? Mér fannst oftast vera gott veður.

Kannski er ég svona ansi gleymin, en þegar ég hugsa þetta mál betur þá er það líklega þannig í mínu tilfelli allavega að ég man betur jákvæða hluti en neikvæða, mér hefur fundist betra að líta á björtu hliðarnar, ekki það að rigningin sé ekki góð í passlegum skömmtum, en það sem ég get ekkert gert í eins og veðrið t.d það hef ég valið að láta trufla mig sem minnst.

En sumt er erfitt að sætta sig við og kemur uppí hugann nú í aðdraganda kosninganna, það er þegar 'hið meinta góðæri' laumaðist inn í íslensku þjóðarsálina, margir létu glepjast en fáir vilja kannski viðurkenna það nú. Þegar sú hugsun hreiðraði um sig í íslensku þjóðfélagi að sumir bæru svo mikla ábyrgð og væru svo mikilvægir fyrir íslensku þjóðina að þeim bæri að fá margfallt hærri laun en sauðsvartur almúginn, þegar útrásin var svo mikil og umsvifin teygðu sig sífellt víðar um heiminn, þegar sumir borðaðu gull og lofaðu grænum skógum, þegar sá sem opnaði munninn yfir gengdarlausri vitleysunni, var gamaldags afturhaldsseggur og á móti allri eðlilegri þróun í átt að þeirri velsæld sem beið okkar handan við hornið, þegarfyrstu íbúðakaupin voru alltí einu leikur einn og hægt var að kaupa tvo nýja bíla að auki, og jafnvel fellihýsi, það var eitthvað bogið við þetta allt saman en það mátti helst ekki nefna.

Nú nokkrum árum síðar hafa tuttugu þúsund manns sótt um skuldaleiðréttingu á vefnum fyrsta daginn sem opnað var á þann möguleika, en því miður mun sú leiðrétting bara vera lítill dropi í skuldahafið. Eftir situr jafnt semt sem áður hópur fólks sem finnst það illa svikið, vonir þess og væntingar að engu orðnar og áframhaldandi skuldabasl blasir við með tilheyrandi áhyggjum.

Nei má ég þá byðja um eitthvað annað, nýtt og betra þjóðfélag sem starfar í anda bræðralags og jöfnuðar, þar sem fólk skilur og veit að við erum öll hlekkir í sömu keðju, við þurfum að styrkja veikustu hlekkina og tengja þessa keðju saman á ný. 

 

 

 


Það vorar á ný.

Þá er það loksins komið blessað vorið, og já sumarið líka samkvæmt dagatalinu.

Það er hætt við að vori seint í sálinni hjá sumum.

Það er nefnilega staðreynd  að á Íslandinu okkar góða býr fólk sem ekki hefur í sig og á, fólk sem er á hálfgerðum vergangi búið að missa húsnæðið sitt  og er upp á náð og miskunn ættingja og vina komið í vandræðum sínum, búslóða geymslur fást ekki lengur þær eru yfirfullar, heilu fjölskyldurnar ferðast milli vina og vandamanna með nauðsynlegustu hluti í tösku, fólk sem misst hefur allt sem það á og atvinnuna að auki hefur ekki ráð á að leigja og það sem verra er það hefur misst vonina um að það muni nokkurntímann vora á ný.

Fyrir börn er erfitt hlutskipti að upplifa svona tíma, þessvegna er mjög brýnt að létta á byrðum fjölskyldna í landinu, stefna að gjaldfrjálsum leikskóla, gjaldfrjálsum grunnskóla frá a-ö, einungis þannig geta öll börn setið við sama borð í skólakerfinu og þurfa ekki að líða fyrir stöðu foreldra sinna.

Það eru erfið spor fyrir marga sem alltaf hafa staðið við sitt að þurfa nú að biðja um aðstoð, sumir hreinlega treysta sér ekki til að berjast um í kerfinu, og fyllast skömm yfir kringumstæðum sínum.

Fólk verður að hafa von, von um betri tíð, réttlátari skiptingu kökunnar og umfram allt betri heim handa komandi kynslóðum.

Það er einhver óskiljanleg seigla í okkur íslendingum, við höfum lifað í harðbýlu landi og margt hefur yfir okkur komið í margskonar náttúruhamförum, við því er ekkert að gera nema þrauka þar til það er yfirstaðið, en hamfarir af mannavöldum eins og dunið hafa á okkur undanfarin ár er erfitt að leiðrétta nema hafa réttlæti til allra í samfélaginu að leiðarljósi.

 Ég er bjartsýn að eðlisfari og ég trúi að til sé fullt af hæfu fólki sem virkilega vill leiðrétta kjör þeirra verst settu.

Ég vona að fólk beri gæfu til að kjósa til starfa í næstu bæjar og sveitarstjórnir fólk sem raunverulega ber hag  þjóðarinnar og náttúrunnar fyrir brjósti. 


Skin og skúrir.

Í dag hafa verið skin og skúrir. Það er eins og vorið sé ekki alveg búið að ákveða hvenær það er komið fyrir alvöru. En vorverkin hjá garðyrkjumönnum þola enga bið. Ég er þessa dagana að stússast í ýmsum verkum í gróðrarstöðinni, ég nýt þeirra foréttinda að sjá pönturnar mínar vaxa og dafna með hverjum deginum sem líður. Það er ekki sjálfgefið að fá að starfa við það sem manni finnst skemmtilegt, alltof margir mæta til vinnu með kvíða í brjósti fyrir komandi degi, allof margir eru ekki metnir að verðleikum á vinnustaðnum sínum alltof margir vinna baki brotnu fyrir lágmarkslaunum og sjá enga leið aðra til að bæta kjör sín en bæta við sig enn meiri vinnu. Það virðist líka vera alltof algengt að því lægri launum sem fólk er á, því sjálfsagðara er álitið að brjóta á réttindum þess. Ég vildi óska að allir gætu verið ánægðir í starfi sínu en veit jafnframt að það mun vera ill framkvæmanlegt, en það eru margir litlir hlutir sem má laga, bros og hrós frá yfirmanninum þegar vel er gert getur breytt slæmum degi í góðan t.d. Og líka þetta, við erum öll hlekkir í einni keðju sá sem er á gólfinu er jafn verðmætur og sá sem trónir á toppnum. Ef að saumakonan saumar ekki tískuvörurnar hefur sölumaðurinn ekkert að selja. Ég hef heyrt suma lýsa þessu á hinn veginn til að réttlæta að sölumaður hafi hærri laun en saumakona. Einu sinni vann ég á ónefndum vinnustað sem mér líkaði mjög vel, fólkið var samhent og allir voru með góða menntun aðeins ein kona hafði ekki klárað háskólann var í hléi frá námi, hún var reyndar svolítiðið hrokafull á stundum, einn daginn hafði hún átt erindi niðrí sundahöfn, hún átti varla orð til að lýsa hneyslan sinni þegar hún hitti skólabróður sinn úr grunnskóla sem hafði hætt eftir tíunda bekk, og hvað haldiði að hann hafi verið að gera, hann var á lyftara niðrí Sundahöfn! Dýpra fannst henni varla hægt að sökkva, á lyftara! Ég benti henni góðfúslega á að einhverjir yrðu að vera á lyftara og kannski fyndist honum það bara skemmtilegt starf. En nú læt ég hér staðar numið að sinni og vona að næst þegar við verslum í stórmarkaði eða komum á aðra vinnustaði þar sem láglaunastefna er sannanlega viðhöfð, brosum allavega og verum kurteis við starfsfólkið það er aldrei að vita nema það geri daginn betri hjá einhverjum. 

 

 

 

 


Hvaðan ertu?

Ég er alin upp í sveit á suðurlandi,þar sem nánast allir þekktu alla og ef einhvern bar að garði var spurningin iðulega hvaðan hann/hún væri. Það má brjóta ísinn í samræðum milli fólks með því að spyrja hvaðan það sé, þá leiðir eitt af öðru og niðurstaðan verður oft sú að viðkomandi þekkir einhvern sem þekkir einhvern........... eða þið eruð jafnvel skyld.

Hann karl faðir minn iðkar þennan sið enn í dag og veit ekkert skemmtilegra en að hitta á einhvern sem þekkir einhvern sem hann þekkir og útfrá því spinnast ýmsar fjörugar umræður.

Hann faðir minn rekur gróðrarstöð og gistiheimili og má nærri geta að hann hitti marga, hann hringir stundum í mig þegar gestir hafa komið á gistiheimilið og segir heldurðu að það hafi bara ekki komið kona ættuð úr Skaftafellssýslunni í dag og hún kannaðist auðvitað við allt fólkið mitt þaðan og við áttum saman svo skemmtilegt spjall, eða rafvirkinn sem kom í gær segir pabbi svo, hann er undan Fjöllunum og auðvitað hafði ég byggt súrheysturn á bænum hans þegar hann var strákur og hann mundi svo vel eftir hvað var gaman að hafa alla þessa vinnukalla á bænum í nokkra daga og svo var bara alltí einu risin turn á fimm dögum, en ég hef ekki sagt þér aðalsöguna segir hann svo, það kom hér kona frá Kanada, og hún kannaðist við frændfólkið okkar í Vinnipeg og við töluðum lengi saman um Vesturfarana og ég gat sagt henni frá Vesturfarasetrinu og það vildi svo heppilega til að það var einmitt erindi í Húsinu á Eyrarbakka um vesturfarana.

Svona er hann pabbi, stundum þegar við vorum yngri systkynin fannst okkur þetta svolítið skrýtið og að kannski fyndist fólki þetta bara óþægilegt, en ég hef komist að því að svo er ekki, í gestabókinni á gistiheimilinu er oft minnst á pabba og honum þakkaðar hlýlegar móttökur og að hafa gert dvölina skemmtilegri.

Á sumrin vinn ég í gróðrarstöðinni og áður en ég veit af  spyr ég fólk sem kemur, hvaðan það sé og stundum verður það ekkert meira, en stundum kemst ég að því að það eru gamlir sveitungar mínir eða jafnvel fólk úr allt öðrum landshluta og þá spinnast samræður um gróðurfar á svæðinu o.sfrv.

Að sýna mönnum og málefnum áhuga skiptir nefnilega miklu máli í mannlegum samskiptum, að láta sig varða það sem aðrir eru að fást við og sýsla getur gert tilveruna skemmtilegri.

Öðru máli gagnir um hnýsni, en hún er allt annars eðlis .

 


Í húsi langömmu .

Þegar ég var að alast upp var jafnrétti kynjanna ekki alltaf í hávegum haft, en á heimili ömmu og afa ríkti það skemmtilega þegjandi samkomulag að þau hjálpuðust alltaf að við uppvaskið eftir kvöldmatinn. Hann afi minn vann langan vinnudag í Stálsmiðjunni til 75 ára aldurs, hann hafði samt alltaf tíma til að hjálpa ömmu eftir sinn eigin vinnudag. Ég uppgötvaði löngu seinna að svona hafði þetta líka verið á æskuheimili ömmu minnar og þar með fór hún amma mín með það að veganesti útí lífið að heimilisstörf eru ekki eingöngu kvennamannsverk.

Hún Viktoría langamma mín var um margt merkileg kona og fór ekki troðnar slóðir. Hún eignaðist níu börn og þau langafi bjuggu með barnahópinn í litlu húsi á Stokkseyri, Sólbakka. Viktoría langamma var meðal stofnenda og fyrsti formaður menningar og friðarsamtaka íslenskra kvenna, hún var hernámsandstæðingur og fór í fyrstu Keflavíkurgönguna sem gengin var. 

Þegar ég hugsa til hennar langömmu í dag dáist ég að dugnaði hennar og kjarki að hafa um miðja síðustu öld gengið á móti straumnum í svo mörgu sem hún tók sér fyrir hendur, hún barðist alla tíð fyrir auknum rétti barna og kvenna, hún barðist fyrir náttúruvernd, friði og bræðralagi. Hún skrifaði margar greinar í blöð og tímarit máli sínu til áréttingar, en hún sýndi líka hug sinn í verki.

Fólki finnst eftilvill léttvægt að tala um uppvask og eldhúsverk, en raunverulegt jafnrétti hefst heima og virðing fyrir lífinu og tilverunni kviknar eftilvill við kvöldmatarborðið þar sem rædd eru landsins gagn og nauðsynjar af jákvæðni og gagnrýni án þess að halla á nokkurn mann, þar sem allir fá að tala og hafa sína skoðun.

Að hjálpast að er eitt það besta meðal í hörðum heimi sem hugsast getur, að vita að þegar á bjátar er hjálp að fá, kennslan í hjálpsemi hefst heima og við verðum að láta verkin tala.

 

 


Fíflunum fjölgar.

Hér á suðurlandi hefur verið nær óþolandi svifriksmengun í marga daga, rykið og askan smýgur inn um hverja glufu og inn í eyru og munn, alveg hreint hundleiðinlegt.

En nú rignir hann og þá léttist  nú lundin hjá mörgum nem'ann rigni lengi þá kvörtum við yfir því og ef ekki rignir nógu lengi þá kvörtum við yfir því líka.

Á Íslandi hafa nefnilega ansi margir allt á hornum sér þessa dagana þetta er orðið okkur svo tamt að við sjáum sum varla lengur til sólar, fólki finnst annað fólk vera fífl t.d ríkisstjórnin eins og hún leggur sig og svo eru ansi mörg fíflin um um allt landið og miðin og fíflunum hefur fjölgað alveg gífurlega nú í aðdraganda kosninganna, og þeim fjölgar sífellt sem gera sig að fifli með því að kalla aðra fífl! 

Hverskonar fíflalæti eru þetta eiginlega? 

Einhversstaðar heyrði ég nefnilega að þegar fíflunum fjölgar í kringum okkur skyldum við líta í eigin barm. 


Ég leitaði blárra blóma.

Á fyrstu búskapar árum mínum bjó ég í Þorlákshöfn.

 Á þeim tíma var ekki mikill gróður í nágrenni þorpsins, svartir sandar svo langt sem augað eygði. Þegar hvessti varð að hlaupa til og taka þvottinn af snúrunum og loka öllum gluggum svo sandurinn kæmist ekki inn. Þetta ástand bjuggum við við í þá daga, en oft sátum við og ræddum um aðgerðir til varnar sandfokinu.

Við byrjuðum flest í eigin garði, lögðum þökur yfir sandinn og smátt og smátt urðu til fallegar grasflatir við hvert hús.

Kvenfélagskonurnar gerðu skrúðgarð í þorpinu og settu þar runna og blóm og þar koma bæjarbúar saman enn þann dag í dag á hátíðis og tyllidögum.

Þegar fólk sá hvað hægt var að gera í garðræktinni jókst áhuginn og brátt urðu til fleiri og fleiri fallegir garðar.

Undir grasinu í garðinum mínum var sandur marga metra niður og skipta þurfti um jarðveg ef átti að gróðursetja plöntur í garðinum, foreldrar mínir gáfu mér fjölær blóm úr sínum garði sem við gróðursettum í beði undir stofuglugganum og þannig kviknaði áhugi minn á garðrækt.

Með tímanum uxu og döfnuðu blómin mín í beðinu og þar kom að ég vildi gera fleiri beð og auka á fjölbreytnina í garðinum mínum, mig langaði í blá blóm.

Ég hafði séð svo undurfögur blá blóm í fjörunni og ég lagði af stað í fjöruferð með dætrum mínum og ofurvarlega tókum við upp nokkur blá blóm úr svörtum snauðum sandinum, settum í kassa og fórum með heim í garð.

Eftir að hafa gróðursett þessi fallegu blóm í góðri mold vökvaði ég vel og hlúði að þeim, í Íslensku flóru bókinni minni komst ég að því að blóm þessi hétu bláliljur. Dagarnir liðu og mikið hugsaði ég vel um blómin mín, en mér til mikillar mæðu vesluðst þau upp og dóu að lokum.

Ég uppgötvaði og lærði síðar að mismunandi gróður þarf mismunandi umhirðu og umhverfi, bláliljan mín dafnar bara best í söltum sandinum úti í auðninni og þar vona ég að enn vaxi bláliljur og lifi góðu lífi.

Þegar ég keyri til Þorlákshafnar í dag sé ég hve sandarnir hafa breyst í áranna rás þar vaxa nú grös og trjágróður og tekist hefur að hefta sandfokið að miklu leyti, þetta hefur tekist með sameiginlegu átaki fólks sem lagði hönd á plóginn.

Við erum öll ólík, eigum mismunandi bakgrunn og sögu, sumir kunna best við sig í borg og bæ, aðrir kjósa sveitina eða sjávarþorpin, sumir sækja í margmennið aðrir þrá einveruna. 

Hverjar svo sem aðstæður okkar í lífinu eru þá eigum við sjálfsagt öll sameiginlegt að vilja lifa farsælu lífi, í réttlátu þjóðfélagi, þar sem börnin okkar geta verið örugg, þar sem grunnþjónustan s.s skóli, heilbrigðisþjónusta þ.m.t. tannlækna- og sálfræðiþjónusta o.þ.h. er bara sjálfsögð og eðlileg þjónusta handa öllum og algjörlega fólki að kostnaðarlausu.  Til þess að svo megi verða, verður töfralausnin ekki lægri skattar heldur þvert á móti og auðvitað á að halda áfram með þrepaskipt skattkerfi, það er réttlátast og á því munu allir hagnast þegar upp er staðið.


Á móti 'öllu'!

Ég velti því stundum fyrir mér hvort við verðum einhvertíma söm eftir kreppuna. Ég velti því líka fyrir mér hvernig við urðum hinu meinta góðæri að bráð og hvernig sumir virðast bíða eftir þeim tímum aftur þegar að því er virtist smjörið draup af hverju strái, starfsfólk lánastofnana hringdi og bauð okkur gull og græna skóga við trúðum því að íslenskt athafnafólk væri að gera það gott bæði hér heima og erlendis, aðalsmerki okkar var ekki lengur stál og hnífur, heldur gull og silfur og við flutum á draumasnekkjum að feigðarósi. Þeir sem ekki trúðu á þetta yndislega góðæri voru svo ömurlegir lúðar sem öllu vildu spilla og voru að fjargviðrast yfir launum fólks sem hafði svo rosalega mikla ábyrgð að annað eins hafði aldrei þekkst á Íslandi báru ábyrgð á heilu bönkunum og rosalega merkilegum stofnunum sem voru jafnvel í eigu þjóðarinnar, því skildi þeim vera ofgott að hafa tuttuguföld laun þeirra sem unnu á 'gólfinu'? Eða vildu friðarspillarnir sem voguðu sér að gagnrýna góðærið, vildi það fólk kannski taka við ábyrgðinni og svara fyrir ef svo ólíklega vildi til að eitthvað færi úrskeiðis?

Og hvað voru nokkrir fisktittir og landslag sem enginn hafði hvort sem er séð, samanborið við það að skapa heilu byggðarlagi atvinnu og þjóðum heimsins ál og þjóðinni gjaldeyri eða átti fólk útá landi kannski bara allt að vinna í fiski, nú eða flytja til Reykjavíkur?

Ég viðurkenni að ég er friðarspillir, ég er á móti 'öllu' eins og sagt er. Ég er á móti því að við böðlumst um landið okkar, sprengjum upp holt og hæðir, breytum fjöllum, fossum, vötnum, og árfarvegum umhugsunarlaust, af því við höldum að það sé gróðavænlegt.

Einu sinni átti að virkja einn fallegasta fossinn okkar, Gulfoss, en heimsæta á bæ einum í Biskupstungum kom í veg fyrir það, erum við nú ekki flest sammála um að virkjun Gullfoss hefði verið meiriháttar umhverfisslys? 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband