Samfélag fyrir alla.

Á laugardaginn göngum við til kosninga enn á ný, á laugardaginn ræðst það hverjir muni gegna störfum í umboði fólksins í bæjar og sveitarstjórnum landsins. Það er ekki lítið eða léttvægt að vera falið það hlutverk að sitja í bæjarstjórn, að ráðstafa fjármunum skattborgaranna í þau margvíslegu verkefni sem eru í stóru sveitarfélagi, sum útgjöld eru vissulega fyrirfram ákveðin og bundin í lögum eða samningum, en annað fer eftir forgangsröðun þeirra sem sitja við stjórnvölinn.

Hjá okkur vinstri grænum eru mál á stefnuskránni sem ekki er að finna í stefnuskrá annarra flokka, nefnilega gjaldfrjáls leikskóli. Í orði er talað um að leikskólinn sé fyrsta skólastigið en á borði er það ekki svo meðan foreldrar leikskólabarna þurfa að borga leikskólagjöld, við viljum ganga alla leið og lækka leikskólagjöld um 25% á ári út kjörtímabilið uns takmarkinu er náð í lok kjörtímabilsins og gjaldfrjáls leikskóli verður að veruleika.

Við viljum einnig að skólamáltíðir verði nemendum að kostnaðarlausu allir nemendur grunnskólans ættu að eiga rétt á fríum skólamat, ekkert barn ætti að þurfa að gjalda fyrir efnahag foreldra sinna innan veggja grunnskólans. Sömuleiðis ættu öll kennslugögn að vera lögð til, blýantar og strokleður þar meðtalið, semsagt allt.

Börnin eru okkar dýrmætasti mannauður, þeirra er framtíðin, það skiptir máli hvernig framtíð við búum börnunum okkar, hvort við jöfnum aðstöðu þeirra til að vaxa og dafna í samfélagi sem hefur það að leiðarljósi að virkja hæfileika hvers og eins og mæta fólki á jafnréttisgrundvelli, eða hvort þeir sem ekki hafa fjárráðin sitji eftir með ónýtta hæfileika sem enginn tók eftir af því þeir fengu ekki tækifæri á að blómstra og njóta sín í samfélagi þar allt kostar.

Það getur hver barnafjölskylda séð hversu mikil kjarabót það yrði ef ekki þyrfti að borga leikskólagjöld.

Þó að við setjum þessi mál á oddinn nú, er fjarri því að við höfum gleymt öllu hinu.

Nú sem aldrei fyrr á stefna okkar vinstri manna erindi við fólkið í samfélaginu, við þurfum að hafa talsmenn umhverfisins áfram við stjórnvölinn, við verðum að halda á lofti og starfa eftir gildum okkar vinstri grænna, jöfnuði, félagslegu réttlæti, og umhverfisvernd.

Eitt lítið mál fyrir okkur öll en stórt í víðara samhengi, er að stefna að platpokalausri Árborg, þar gætu fyrirtæki gengið á undan með góðu fordæmi og notað bréfpoka í stað plastpoka og við öll gætum notað taupoka, og jafnvel ætti sveitarfélagið að fara á undan með góðu fordæmi og senda margnota poka inn á heimilin í sveitarfélaginu. Við þurfum öll að leggjast á eitt við að snúa hinni gengdarlausu umbúðasóun við.

Ekki halda að við gleymum eldri borgurum Árborgar, í stefnuskrá okkar er komið inná allt það er varðar mannauð samfélagsins, við munum gera okkar besta í að mæta þörfum hvers og eins, sem að einhverjum ástæðum þarf liðsinnis við, sveitarfélagið hefur á að skipa gott sérhæft starfsfólk sem sinnir þarfagreiningu skjólstæðinga sinna og þar má aldrei skera niður, frekar bæta við starfsfólki heldur en hitt.

Ég hvet ykkur til að hugsa um það sem raunverulega skiptir máli í góðu samfélagi. Ég veit að flestum verður hugsað til fjölskyldunnar þegar raunveruleg verðmæti eru skoðuð, við hugsum til barnanna okkar sem eru svo dýrmæt, foreldranna sem leggja hart að sér til að ná endum saman, unglinganna sem standa frammi fyrir margskonar vali í lífinu, og eldra fólksins sem á fá að halda sinni reisn og taka ákvarðanir um hvort það vill búa á eigin heimili sem lengst og geti verið í sinni heimabyggð er ævikvöldið nálgast.

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband