Að breyta vatni í vín.

Á unglingsárum mínum vorum við þrjár vinkonur í tríói sem spilaði og söng við hin ýmsu tækifæri.

Dag einn kom eldri systir vinkonu minnar að máli við okkur og spurði hvort við værum til í að skemmta á vinnustaðnum hennar eitt eða fleiri fimmtudagskvöld, hún var hjúkrunarfræðingur á Kleppsspítala.

Á Kleppi voru haldin skemmtikvöld á fimmtudögum á þessum árum fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra.

Þetta var á áttunda áratugnum og vitneskja okkar um geðsjúkdóma ekki mikil, við ákváðum þó að láta slag standa þrátt fyrir ýmislegt sem við höfðum heyrt um þennan voðalega stað, Klepp.

Það er skemmst frá því að segja að þetta kvöld skemmtu allir sér konunglega og við vinkonurnar ekki síður.

Eftir atriðið okkar var slegið upp balli og dönsuðum við vinkonurnar við þá sem buðu okkur upp, bæði karla og konur, þarna voru svokallaðir gæslumenn með sjúklingunum og ég taldi mig þekkja þá úr hópnum.

Það kom til mín ungur myndarlegur maður og bauð mér upp í dans, hann var með sítt hár og klæddur samkvæmt nýjustu tísku þess tíma. Eftir fyrsta dansinn spurði ég hann hvort hann hefði starfað lengi á Kleppi, en hann svaraði: ég vinn ekki hérna ég er bara kleppari! Steinhissa horfði ég á þennan unga og að því er virtist heilbrigða mann, ekki hafði ég haft hugmynd um að svona gætu sjúklingar á Kleppi litið út. Kannski var það þá sem viðhorf mín til geðsjúkdóma breyttust, allavega leið mér ágætlega innan um fólkið þarna það sem eftir var kvöldsins. Á borði einu í salnum sat dökkhærð kona sem breytti vatni í vín það var stöðugur straumur að borðinu hennar með vatnsglös og frá henni kom fólkið léttara í spori því leið örlítið betur eftir að hafa dreypt á ímynduðu áfenginu það skipti ekki máli þó flestir vissu að þetta væri blekking en leikurinn var skemmtilegur og flestir tóku þátt. Eina kvöldstund gat fólkið að einhverju leyti gleymt örlögum sínum, dansað og sungið, og drukkið 'vín' eins og aðrir sem skemmtu sér í danssölum borgarinnar.

Mér verður stundum hugsað til þessa kvölds og auðvitað skynjaði ég líka sorgina og harminn sem  skein úr augum barnanna sem þarna voru að heimsækja ættingja sína á Kleppi, ættingja sem jafnvel aldrei snéru aftur heim.

Það er einlæg von mín að fordómar gagnvart geðsjúkdómum séu á undanhaldi og vonandi er hlutfall þeirra sem öðlast bata alltaf að hækka.  

 

 

 


Iðna Lísa.

Iðna Lísan mín er nú byrjuð að blómstra aftur í eldhúsglugganum mínum eftir rúmlega tveggja mánaða hlé, það eru svo sannarlega gleði tíðindi sem sýna svo ekki verður um villst að nú tekur birtan smátt og smátt völdiní umhverfi okkar. En það er ekki jafn bjart framundan hjá öllum hvað sem dagsbirtunni líður, mörgum finnst sem þeir hafi orðið eftir útí kuldanum og myrkrinu, þrátt fyrir að nú séum við laus við eitt stóra málið sem lá yfir landinu eins og mara þá sé borin von að nokkurn tíma nái fram að ganga eitthverskonar réttlæti til þeirra sem aldrei tóku þátt í hinu meinta góðæri aldrei gerðu annað en standa sína pligt, voru bara með venjuleg laun, áttu ósköp venjulegt húsnæði og bíl á þeim kjörum sem hægt var að ráða við á þeim tíma. Nú stendur þetta fólk í erfiðum sporum og berst um á hæl og hnakka að láta enda ná saman.

Mér fannst það vissulega stórsniðug hugmynd hjá þjóðþekktri framsóknarkonu þegar hún upplýsti það að hún ætlaði nú að fara að spara í matarinnkaupum og gera matseðla fram í tímann, en þegar hún klikkti út með að hún ætlaði  reyna að eyða ekki meira í mat en 30.000.-kr á viku! 30.000- á viku! Það var þar sem ég staldraði við. Þessi upphæð sem hún nefndi gerði það að verkum að ég fór að hugsa um þessa gjá sem talað hefur verið um í þjóðfélaginu okkar,  milli tekjulágra og svo hinna sem meira hafa og þarna kom það berlega í ljós, í þjóðfélagi þar sem lágmarkslaun eru 180.000.- á mánuði og ansi margir þurfa að láta sig hafa, að ég tali nú ekki um öryrkja, eftirlaunafólk og atvinnulausa sem hafa jafnvel enn minna, þá er það eins og blaut tuska í andlitið að fá svona trakteringar 'að ætla að reyna að eyða ekki meira í mat en 30.000.- á viku. 

Vonandi er von um betri tíð í vændum, vonandi mun réttlætið ná fram að ganga, vonandi mun okkur loksins skiljast að við erum  öll á sama báti. Auðvitað veit ég að þetta er einföldun jafnvel barnalegt að halda að einn góðan veðurdag muni réttlæti ríkja en það sakar ekki að hafa góð markmið og taka þátt í að skapa réttlátari veröld. Mín skoðun er sú sú að þeir sem standa hjá og aðhafast ekkert nema kannski í niðurifsskyni , bera ekki síður ábyrgð, orustan vinnst ekki á bloggsíðum, í meinfýsnum athugasemdum, eða eilífu orðaskaki. Breytingarnar byrja heima, í breyttu hugarfari, jákæðari umræðu og virðingu og væntumþyku,  sem skilar sér síðan út í samfélagið.

 Ég mun taka hana Iðnu Lísu mér til fyrirmndar og  teygja mig í átt til birtunnar, og þreyja þorrann og góuna, og hefjast handa við vorverkin fyrr en seinna.

Því eins og skáldið kvað: 'því hvað er auður og afl og hús, ef engin jurt vex í þinni krús?' 

 

 


Frá mínum bæjardyrum séð.

Í uppvexti mínum man ég varla eftir að hafa heyrt minnst á kynferðislega misnotkun, enda var það orð ekki einusinni til í þá daga. Ég er fædd eftir miðja síðustu öld, þegar ég var unglingur hlustuðum við á Zeppelín, Deep Purple, Bob Dylan o.s.frv, við rétt náðum í rassinn á hippatímanum og lífið var blómum stráð og frelsið algjört. Við trúðum að Víetnamstríðið markaði endalok allra stríða í heiminum eftir þau hroðalegu mistök yrði bara ást og friður.

En aftur að kynferðislegri misnotkun, jú við heyrðum talað um ógeðslega kalla sem káfuðu á ungum stelpum og okkur fannst þær 'algjörar mellur' að 'leyfa' þeim að káfa á sér, skilningurinn náði nú ekki lengra í þá daga. Við heyrðum líka um dónakalla sem væru berir undir frakkanum og væru að flassa ef þeir mættu konum á förnum vegi og þegar vinkona mín leigði á Laugaveginum stóð oft allsber kall í glugganum í bakhúsinu og beraði sig. Svo var svona dónakall á Óðinsgötunni sem var að sýna sig, lengra náði nú dónaskapurinn ekki.
Við lifðum semsagt í veröld þar sem ekkert svona ljótt viðgekkst eins og kynferðisleg misnotkun, og sifjaspell voru bara til í bókum og kannski í útlöndum, eða hvað?
Ég byrjaði að búa og eignast börn á áttunda áratugnum og það var ekki fyrr en í byrjun þess níunda að ég las viðtal við konu sem hafði starfað í Svíþjóð við að taka á móti fólki sem hafði orðið fyrir kynferðilegu ofbeldi í æsku og ég man ég hugsaði, svona eru þá andskotans Svíarnir, en í viðtalinu sagði hún einnig að svona lagað væri talsvert algengt og hér á landi væri þetta örugglega ekki öðruvísi en í öðrum löndum. Ég man ég fylltist hryllingi við þessa staðhæfingu hennar, nei hugsaði ég það getur ekki verið, ekki á Íslandi!
Annað kom í ljós, ég hafði rangt fyrir mér því miður og í dag efast ég ekki um tilurð kynferðisbrota gegn börnum.
Það tekur langan tíma að komast yfir vanmáttinn, reiðina, og vonleysið sem hellist yfir þegar hver sagan á fætur annarri um misnotkun og ofbeldi á börnum lítur dagsins ljós, það er erfitt að treysta og auðvelt að dæma.
Við megum samt engann tíma missa við það að hjálpa þeim sem hafa orðið fyrir misnotkun, því eins og fram hefur komið hjá þolendum sem unnið hafa í sínum málum með hjáp þeirra sem við það starfa, er hægt að öðlast gott líf þrátt fyrir allt.
Það er gleðilegt hve margir hafa stigið fram og sagt frá, og eru örugglega búnir að hjálpa öðrum í sömu sporum með frásögnum sínum, en jafnframt sorglegt til þess að hugsa að við erum einungis að sjá toppinn á ísjakanum.


Nú árið er liðið.

Sem nýr bloggari langar mig að byrja á því að óska þeim sem lesa þetta gleðilegs árs.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband