Iðna Lísa.

Iðna Lísan mín er nú byrjuð að blómstra aftur í eldhúsglugganum mínum eftir rúmlega tveggja mánaða hlé, það eru svo sannarlega gleði tíðindi sem sýna svo ekki verður um villst að nú tekur birtan smátt og smátt völdiní umhverfi okkar. En það er ekki jafn bjart framundan hjá öllum hvað sem dagsbirtunni líður, mörgum finnst sem þeir hafi orðið eftir útí kuldanum og myrkrinu, þrátt fyrir að nú séum við laus við eitt stóra málið sem lá yfir landinu eins og mara þá sé borin von að nokkurn tíma nái fram að ganga eitthverskonar réttlæti til þeirra sem aldrei tóku þátt í hinu meinta góðæri aldrei gerðu annað en standa sína pligt, voru bara með venjuleg laun, áttu ósköp venjulegt húsnæði og bíl á þeim kjörum sem hægt var að ráða við á þeim tíma. Nú stendur þetta fólk í erfiðum sporum og berst um á hæl og hnakka að láta enda ná saman.

Mér fannst það vissulega stórsniðug hugmynd hjá þjóðþekktri framsóknarkonu þegar hún upplýsti það að hún ætlaði nú að fara að spara í matarinnkaupum og gera matseðla fram í tímann, en þegar hún klikkti út með að hún ætlaði  reyna að eyða ekki meira í mat en 30.000.-kr á viku! 30.000- á viku! Það var þar sem ég staldraði við. Þessi upphæð sem hún nefndi gerði það að verkum að ég fór að hugsa um þessa gjá sem talað hefur verið um í þjóðfélaginu okkar,  milli tekjulágra og svo hinna sem meira hafa og þarna kom það berlega í ljós, í þjóðfélagi þar sem lágmarkslaun eru 180.000.- á mánuði og ansi margir þurfa að láta sig hafa, að ég tali nú ekki um öryrkja, eftirlaunafólk og atvinnulausa sem hafa jafnvel enn minna, þá er það eins og blaut tuska í andlitið að fá svona trakteringar 'að ætla að reyna að eyða ekki meira í mat en 30.000.- á viku. 

Vonandi er von um betri tíð í vændum, vonandi mun réttlætið ná fram að ganga, vonandi mun okkur loksins skiljast að við erum  öll á sama báti. Auðvitað veit ég að þetta er einföldun jafnvel barnalegt að halda að einn góðan veðurdag muni réttlæti ríkja en það sakar ekki að hafa góð markmið og taka þátt í að skapa réttlátari veröld. Mín skoðun er sú sú að þeir sem standa hjá og aðhafast ekkert nema kannski í niðurifsskyni , bera ekki síður ábyrgð, orustan vinnst ekki á bloggsíðum, í meinfýsnum athugasemdum, eða eilífu orðaskaki. Breytingarnar byrja heima, í breyttu hugarfari, jákæðari umræðu og virðingu og væntumþyku,  sem skilar sér síðan út í samfélagið.

 Ég mun taka hana Iðnu Lísu mér til fyrirmndar og  teygja mig í átt til birtunnar, og þreyja þorrann og góuna, og hefjast handa við vorverkin fyrr en seinna.

Því eins og skáldið kvað: 'því hvað er auður og afl og hús, ef engin jurt vex í þinni krús?' 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband