Að breyta vatni í vín.

Á unglingsárum mínum vorum við þrjár vinkonur í tríói sem spilaði og söng við hin ýmsu tækifæri.

Dag einn kom eldri systir vinkonu minnar að máli við okkur og spurði hvort við værum til í að skemmta á vinnustaðnum hennar eitt eða fleiri fimmtudagskvöld, hún var hjúkrunarfræðingur á Kleppsspítala.

Á Kleppi voru haldin skemmtikvöld á fimmtudögum á þessum árum fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra.

Þetta var á áttunda áratugnum og vitneskja okkar um geðsjúkdóma ekki mikil, við ákváðum þó að láta slag standa þrátt fyrir ýmislegt sem við höfðum heyrt um þennan voðalega stað, Klepp.

Það er skemmst frá því að segja að þetta kvöld skemmtu allir sér konunglega og við vinkonurnar ekki síður.

Eftir atriðið okkar var slegið upp balli og dönsuðum við vinkonurnar við þá sem buðu okkur upp, bæði karla og konur, þarna voru svokallaðir gæslumenn með sjúklingunum og ég taldi mig þekkja þá úr hópnum.

Það kom til mín ungur myndarlegur maður og bauð mér upp í dans, hann var með sítt hár og klæddur samkvæmt nýjustu tísku þess tíma. Eftir fyrsta dansinn spurði ég hann hvort hann hefði starfað lengi á Kleppi, en hann svaraði: ég vinn ekki hérna ég er bara kleppari! Steinhissa horfði ég á þennan unga og að því er virtist heilbrigða mann, ekki hafði ég haft hugmynd um að svona gætu sjúklingar á Kleppi litið út. Kannski var það þá sem viðhorf mín til geðsjúkdóma breyttust, allavega leið mér ágætlega innan um fólkið þarna það sem eftir var kvöldsins. Á borði einu í salnum sat dökkhærð kona sem breytti vatni í vín það var stöðugur straumur að borðinu hennar með vatnsglös og frá henni kom fólkið léttara í spori því leið örlítið betur eftir að hafa dreypt á ímynduðu áfenginu það skipti ekki máli þó flestir vissu að þetta væri blekking en leikurinn var skemmtilegur og flestir tóku þátt. Eina kvöldstund gat fólkið að einhverju leyti gleymt örlögum sínum, dansað og sungið, og drukkið 'vín' eins og aðrir sem skemmtu sér í danssölum borgarinnar.

Mér verður stundum hugsað til þessa kvölds og auðvitað skynjaði ég líka sorgina og harminn sem  skein úr augum barnanna sem þarna voru að heimsækja ættingja sína á Kleppi, ættingja sem jafnvel aldrei snéru aftur heim.

Það er einlæg von mín að fordómar gagnvart geðsjúkdómum séu á undanhaldi og vonandi er hlutfall þeirra sem öðlast bata alltaf að hækka.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég umgengst talsvert geðveikan mann. Hann er einn af mínum bestu vinum.

Ólafur Th Ólafsson (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband