Í húsi langömmu .

Þegar ég var að alast upp var jafnrétti kynjanna ekki alltaf í hávegum haft, en á heimili ömmu og afa ríkti það skemmtilega þegjandi samkomulag að þau hjálpuðust alltaf að við uppvaskið eftir kvöldmatinn. Hann afi minn vann langan vinnudag í Stálsmiðjunni til 75 ára aldurs, hann hafði samt alltaf tíma til að hjálpa ömmu eftir sinn eigin vinnudag. Ég uppgötvaði löngu seinna að svona hafði þetta líka verið á æskuheimili ömmu minnar og þar með fór hún amma mín með það að veganesti útí lífið að heimilisstörf eru ekki eingöngu kvennamannsverk.

Hún Viktoría langamma mín var um margt merkileg kona og fór ekki troðnar slóðir. Hún eignaðist níu börn og þau langafi bjuggu með barnahópinn í litlu húsi á Stokkseyri, Sólbakka. Viktoría langamma var meðal stofnenda og fyrsti formaður menningar og friðarsamtaka íslenskra kvenna, hún var hernámsandstæðingur og fór í fyrstu Keflavíkurgönguna sem gengin var. 

Þegar ég hugsa til hennar langömmu í dag dáist ég að dugnaði hennar og kjarki að hafa um miðja síðustu öld gengið á móti straumnum í svo mörgu sem hún tók sér fyrir hendur, hún barðist alla tíð fyrir auknum rétti barna og kvenna, hún barðist fyrir náttúruvernd, friði og bræðralagi. Hún skrifaði margar greinar í blöð og tímarit máli sínu til áréttingar, en hún sýndi líka hug sinn í verki.

Fólki finnst eftilvill léttvægt að tala um uppvask og eldhúsverk, en raunverulegt jafnrétti hefst heima og virðing fyrir lífinu og tilverunni kviknar eftilvill við kvöldmatarborðið þar sem rædd eru landsins gagn og nauðsynjar af jákvæðni og gagnrýni án þess að halla á nokkurn mann, þar sem allir fá að tala og hafa sína skoðun.

Að hjálpast að er eitt það besta meðal í hörðum heimi sem hugsast getur, að vita að þegar á bjátar er hjálp að fá, kennslan í hjálpsemi hefst heima og við verðum að láta verkin tala.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband